Sýslumannsuppboð
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu heldur reglulega uppboð á bifreiðum og vinnuvélum og gilda um þau uppboð almennir skilmálar eins og þeir eru fram settir í auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 42/1992 sbr. meðfylgjandi.
Auglýsing í Stjórnartíðindum nr. 42/1992
Um almenna skilmála fyrir uppboðssölu á lausafjármunum o.fl.
1.gr.
Skilmálar þessir taka til nauðungarsölu við uppboð á eignum og réttindum sem falla undir XI, og XII. kafla laga um nauðungarsölu nema annað sé ákveðið sérstaklega við sölu á tilteknum munum eða uppboðið í heild sinni.
2.gr.
Þegar sýslumaður hefur skorað þrívegis á viðstadda að gera boð í hlut án þess að þau komi lætur hann hamar falla og getur þess um leið hvort boði sé tekið og hvaða.
Komi ekkert boð fram í hlut getur sýslumaður ákveðið að bæta öðrum munum við og leita boði í þá í einu lagi.
Sýslumanni er óskylt að taka boði telji hann það óhæfilega lágt með hliðsjón af líklegu markaðsverði hlutar. Getur hann þá orðið við kröfu aðila um að hafna öllum boðum og fresta til annars uppboðs að reyna sölu að ný.
Sýslumaður hafnar öllum boðum í hlut, ef nauðungarsala fer fram til fullnustu peningakröfu og ekki er boðið meira en svo, að engin gerðabeiðanda fái nokkra greiðslu í sinn hlut af söluverðinu.
3.gr.
Munir seljast í því ástandi sem þeir eru í þegar hamar fellur.
4.gr.
Kaupandi verður ekki krafinn sérstaklega um greiðslu kostnaðar eða greiðslu virðisaukaskatts af sölu hlutar til viðbótar við boð sitt.
5.gr.
Greiðsla söluverðs fer fram við hamarshögg. Þó má ákveða, áður en boða er leitað, að gjaldfrestur verði veittur við sölu tiltekinna muna enda komi um það ósk eða samþykki frá gerðabeiðanda.
6.gr.
Kaupandi ber áhættu af munum frá því að hamar fellur. Þegar um bifreið er að ræða skal kaupandi tryggja hana áður en hún er færð af uppboðsstað. Að öðrum kosti verða skráningarmerki hennar fjarlægð.
7.gr.
Kaupanda er rétt og skylt að taka muni í sínar vörslur um leið og kaupverð þeirra er greitt. Sé gjaldfrestur veittur verða munir varðveittir á kostnað og áhættu kaupanda þar til verð þeirra er að fullu greitt.
8.gr.
Eingin ábyrgð er tekin á ástandi muna eða heimild yfir þeim og getur kaupandi ekki haft uppi kröfu um riftun, afslátt eða skaðabætur eftir að söluverðinu hefur verið ráðstafað.
Skilmálar þessir fyrir uppboðssölu á eignum og réttindum samkvæmt XI. og XII. kafla laga um nauðungarsölu eru settir samkvæmt ákvæðum í 65. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90 23.desember 1991.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, 27. Janúar 1992.
Þorsteinn Pálsson
Uppboð Vöku
Öll ökutæki sem selja á á uppboðsvef Vöku, verða að vera skráð eign seljanda, vera kvaða og veðbandalaus. Bifreiðagjöld og önnur opinber gjöld af ökutæki verða einnig að vera að fullu greidd svo uppboðsvefur Vöku taki ökutæki til uppboðsmeðferðar. Sama gildir um annað lausafé, að seljandi sé eigandi lausafjárins og það sé kvaða og veðbandalaust.
I. Hverjir geta selt lausafé á uppboðsvef Vöku?
Allir einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri og eru fjárráða geta selt lausafé á uppboðsvef Vöku.
II. Hver eru skilyrði fyrir sölu lausafjár á uppboðsvef Vöku?
Öll ökutæki sem selja á á uppboðsvef Vöku, verða að vera skráð eign seljanda, vera kvaða og veðbandalaus. Bifreiðagjöld og önnur opinber gjöld af ökutæki verða einnig að vera að fullu greidd svo uppboðsvefur Vöku taki ökutæki til uppboðsmeðferðar. Sama gildir um annað lausafé, að seljandi sé eigandi lausafjárins og það sé kvaða og veðbandalaust.
III. Hvar er uppboðsmunur staðsettur meðan uppboð fer fram á uppboðsvef Vöku?
Uppboðsmunur getur verið staðsettur hvar sem er, að því gefnu að áhugasamir kaupendur geti skoðað og kynnt sér uppboðsmun. Almenna reglan er þó að uppboðsmunir eru staðsettir í uppboðshúsi Vöku að Héðinsgötu 2, 105 Reykjavík eða á sér tilgreindu útisvæði á vegum Vöku.
IV. Hver er upplýsingaskylda seljanda?
Seljandi skal ávallt gefa greinargóða lýsingu á uppboðsmun áður en uppboðsferli hefst og upplýsa um alla galla sem vitað er um og önnur atriði sem áhrif geta haft á verðmæti uppboðsmunar.
Þó tilgreint sé sérstaklega að uppboðsmunur seldur í því ástandi sem hann er, þá getur seljandi talist ábyrgur fyrir galla ef uppboðsmunur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur gefið eða ef seljandi hefur vanrækt að gefa upplýsingar um atriði sem verulegu máli skipta varðandi uppboðsmuninn eða not hans og seljandi hlaut að þekkja til og kaupandi mátti ætla að seljandi upplýsti um sbr. IV. kafla laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.
V. Hvernig ræðst verðið sem fæst fyrir uppboðsmuni á uppboðsvef Vöku?
Seljandi skal tilgreina ásættanlegt lágmarksverð fyrir alla uppboðsmuni sem Vaka tekur til sölumeðferðar. Seljandi ræður því hvort tilgreint lágmarksverð er birt áhugasömum kaupendum eða ekki. Þá getur seljandi einnig valið að tilgreina það verð sem kaupendur geta keypt uppboðsmun á, án frekari boða, svokallað „kaupa nú“ verð.
Verðmyndun ræðst síðan af þeim tilboðum sem berast í uppboðsmun. Nái hæsta tilboð tilgreindu lágmarksverði er seljandi bundin/n af því boði og hefur þá komist á bindandi kaupsamningur.
VI. Hver ferill uppboðs eftir að uppboðsmunur er skráður á uppboðsvef Vöku?
Þegar öll skjöl hafa verið undirrituð er uppboðsmunur myndaður og skráður á uppboðsvef með þeim skilmálum sem seljandi setur fram um uppboðstíma, lágmarksverð og/eða ásett „Kaupa nú“ verð.
Hver uppboðshrina stendur almennt yfir í 5 til 7 daga og á þeim tíma er geta áhugasamir kaupendur skoðað uppboðsmuni í uppboðshúsi Vöku og gert tilboð á uppboðsvef. Þegar tilboð er gert í uppboðsmun er hæsta tilboðsverð ávallt sýnilegt og getur nýr tilboðsgjafi þá boðið hærra verð til að fá sitt tilboð skráð.
Tilboðsgjafi getur einnig virkjað uppboðsvöktun og gert svokallað „Hlaupandi tilboð“, en þá skráir tilboðsgjafi það hámarksverð sem hún/hann er tilbúin/n að kaupa uppboðsmun á. Uppboðsvefur yfirbýður þá sjálfkrafa boð annarra tilboðsgjafa í lágum þrepum, allt þar til aðrir hætta að bjóða eða uppgefnu hámarksverði er náð.
Öll tilboð miða við staðgreiðslu og ef svo á við, er virðisaukaskattur innifalinn í tilboðsverði nema annað sé sérstaklega tekið fram. Ekki er hægt að gera tilboð með fyrirvörum.
Sé hæsta boð við lok uppboðshrinu jafnt og eða hærra en uppgefið lágmarksverð seljanda, er kominn á bindandi kaupsamningur um viðkomandi uppboðsmun og er seljandi þá bundinn af því að selja hæstbjóðanda gegn því kaupverði sem hæst var boðið og tilboðsgjafi jafnframt skuldbundin/n til að staðgreiða kaupverðið innan tilskilins frests frá lokun uppboðshrinu.
Náist lágmarksverð ekki hefur seljandi val um hvort hæstbjóðanda er boðið að kaupa uppboðsmun, uppboðsmunur er tekinn úr sölu eða settur að nýju á uppboð. Ætli seljandi að falla frá skilmálum um lágmarksverð og ganga að hæsta tilboði þó lágmarksverð hafi ekki náðst, skal ákvörðun um það liggja fyrir innan klukkustundar frá lokun uppboðshrinu.
Tilboðsgjafi er aðeins bundinn við sitt hæsta tilboð, hvort sem það nær lágmarksverði eða ekki, að það sé hæsta boð sem fram kom í viðkomandi uppboðshrinu. Þannig er tilboðsgjafi er laus undan kvöð um efndir boðs, um leið og annar tilboðsgjafi býður hærra verð í sama uppboðsmun.
Um leið og söluandvirði uppboðsmunar hefur verið greitt til Vöku og öll nauðsynleg skjöl vegna kaupanna framkölluð og undirrituð, fer fram uppgjör. Uppboðsmunur er þá afhentur nýjum eiganda og söluandvirðið að frádreginni söluþóknun og mögulegum kostnaði, greitt til seljanda innan þriggja virkra daga.
Eftir að kaup eru frágengin, skal kaupandi tafarlaust fjarlægja uppboðsmun af starfssvæði Vöku. Hafi kaupandi ekki fjarlægt uppboðsmun innan þriggja daga frá því kaup voru frágengin, er uppboðsmunur færður á vörslusvæði Vöku og greiðir kaupandi geymslugjald af uppboðsmuninum í samræmi við gjaldskrá Vöku hverju sinni. Hafi uppboðsmunur ekki verið sóttur innan þriggja mánaða frá því munur var tekinn til geymslu, áskilur Vaka sér rétt til að selja uppboðsmun til uppgjörs á áföllnum kostnaði ellegar farga uppboðsmun á kostnað kaupanda.
VII. Hvað ef rangt verð er boðið í hlut eða ef villa verður við tilboðsgerð?
Umsjónarmaður uppboðsvefs fylgist með ferli hverrar uppboðshrinu og lætur vita ef vart verður við augljósar villur í uppboðum. Uppboðsvefur Vöku ber þó enga ábyrgð á villum sem tilboðsgjafi kann að gera við tilboðsgerð, eða afleiðingum sem slíkt kann að hafa og skal tilboðsgjafi tafarlaust hafa samband við umsjónarmann uppboðsvefs með tölvupósti á netuppbod@vaka.is verði vart við villu í tilboði, og óska eftir að fá villuna leiðrétta.
VIII. Hvað gerist ef uppboðsmunur selst ekki?
Ef ekki tekst að selja uppboðsmun í fyrstu umferð getur seljandi valið að keyra aðra uppboðshrinu í samræmi við ákvæði umboðs- og þjónustusamnings. Skal framhaldshrina fara fram innan tveggja vikna frá lokum fyrri hrinu.
Renni sölu- og þjónustusamningur við Vöku út án þess að uppboðsmunur seljist, eða ef seljandi ákveður að frekari uppboð verði ekki reynd, skal seljandi fjarlægja uppboðsmun af starfssvæði uppboðsvefs Vöku án tafar. Hafi Seljandi ekki sótt uppboðsmun innan þriggja daga frá lokun uppboðshrinu, er uppboðsmunur færður á vörslusvæði Vöku og greiðir seljandi geymslugjald af uppboðsmuninum í samræmi við gjaldskrá Vöku hverju sinni. Hafi uppboðsmunur ekki verið sóttur innan þriggja mánaða frá því munur var tekinn til geymslu, áskilur Vaka sér rétt til að selja uppboðsmun til uppgjörs á áföllnum kostnaði ellegar farga uppboðsmun á kostnað seljanda.
IX. Almennir fyrirvarar
Vaka ber ekki ábyrgð á lausamunum í bifreiðum eða bifreiðum á útisvæði eða í vörsluporti.
Allar upplýsingar á uppboðsvef Vöku eru með fyrirvara innsláttarvillur. Vaka áskilur sér rétt til breytinga á skilmálum þessum og öðlast nýir skilmálar gildi um leið og þeir eru birtir á heimasíðu félagsins, vaka.is
Samþykkt þann 17. janúar 2020